Skýrsla

Inngangur

Skýrsla þessi var unnin af tveimur konum, Hlín Ólafsdóttur og Karlottu Helgadóttur, sem eru nemendur á sínu 2. ári í uppeldis-og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Orðræða þjóðfélagsins hefur oft beinst að hinum hefðbundnu kynhlutverkum þar sem konur sinna fyrst og fremst öllu sem snýr að heimilinu, ala upp börnin og sjá til þess að öllum líði vel. Á sama tíma eru karlmennirnir fjölskyldufeður og fyrirvinnur. Þessar staðalímyndir eru að mati Hlínar og Karlottu mjög úreltar enda er kyngervi ekkert nema félagslegt sköpunarverk sem hefur orðið til til að greina konur og karla í sundur. Samfélagið heldur síðan þessum staðalímyndum uppi. Það sem þykir karlmannalegt á Íslandi gæti talist kvenlegt einhversstaðar annarsstaðar í heiminum. Nú er árið 2017 og höfundar þessarar skýrslu eru hættir að lýta á hlutina svona svart og hvítt. Kyn skiptir ekki máli. Hver og einn einstaklingur á rétt á því að gera það sem hann vill og gera það sem gerir hann hamingjusaman. Það hafa allir rétt á því að eltast við drauma sína. Tilgangur þessarar skýrslu er að skyggnast inn í heim kvenna í karllægum störfum með áherslu á konur í karllægum iðnaðarstörfum ásamt því að skoða birtingarmyndir þeirra í hinum ýmsu miðlum.

Meginmál

Hugtök

Hugtökin sem voru höfð til hliðsjónar á meðan unnið var að þessari skýrslu voru eftirfarandi: Eðlishyggja sem felur í sér þá hugmynd að kynin fæðist með ólíka eiginleika og skapgerð. Hefðbundin kynhlutverk sem vísa í hugmyndir um hlutverk karla og kvenna frá fyrri tíð. Karlmannalegar konur (e. female masculinity) sem vísar til kvenna sem eru að mörgu leiti líkari karlmönnum heldur en konum almennt. Karlmennska sem nær yfir margar ólíkar hugmyndir sem eiga að lýsa einkennum karla. Kvenleiki sem er andhverfan við karlmennsku. Kyngervi sem fleur í sér að kynjamunur sé fyrst og fremst félagslegt sköpunarverk. Mótunarhyggja sem lýsir því hvernig einstaklingurinn mótast af nánasta umhverfi. Staðalmyndir kynjanna þar sem ljósi er varpað á hversu einhæfar hugmyndir okkar eru þegar við sjáum fyrir okkur kynin.

 

Birtingarmyndir í fjölmiðlum

Fjölmiðlar er áhrifamesta upplýsingaheimildin hvort sem um sé að ræða fréttir, hugmyndir eða skoðanir almennings. Þá er það einnig í höndum fjölmiðlanna að ákveða hvað birtist og hverju er haldið í skefjum. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að konur fá ekki sömu athygli og karlmennirnir. Til dæmis má nefna að á Íslandi fjallar ein af hverjum fimm fréttum um konur. Rannsókn var gerð um þetta málefni árið 2010 og þá var hlutfallið hærra, konum í hag, svo þessar niðurstöður eru ekki góðar í jafnréttisbaráttunni sem við stöndum að í nútímasamfélagi. Þess má geta að kynjahlutfall íslenskra frétta er töluvert lægra heldur en í hinum Norðurlöndunum (Valgerður Jóhannsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir, 2015). Er það von höfunda þessarar skýrslu að þessi þróun fari að standa konum í hag og að jafnréttið fari að skila sér í fjölmiðla og þar af leiðandi myndu jafnvel fleiri konur standa upp og ákveða að fylgja draumum sínum og hefja nám í karllægum iðngreinum.

Höfundar þessarar skýrslu rýndu í nokkrar greinar til að kynna sér málið og þurftu ekki að leita langt. Um leið og maður skoðar vefræna Byko-, Húsasmiðju- og Bauhausbæklinga þá sjást augljóslega fleiri birtingarmmyndir er af körlum, sérstaklega í Byko bæklingunum. Miklar breytingar eru hjá Húsasmiðjunni í nýjasta blaðinu þeirra frá því síðasta, þar sem kynjahlutföllin eru nánast jöfn í nýjasta blaðinu og frábært að sjá að það eru til dæmis myndir af karli við þvottavél og konu með verkfæri. Einnig kom í ljós við að skoða gamlar leiknar auglýsingar frá þessum fyrirtækjum að sviðsljósið var hjá körlunum.  Þegar Afl starfsgreinasíðan er skoðuð þá kemur upp mynd af karli og konu hlið við hlið. Karlinn heldur á verkfæri á meðan konan stendur við hlið hans með fullt fangið af sængum og koddum.

Náms- og starfsval sem er kynbundið hefur umtalsverð áhrif á uppbyggingu og þróun samfélaga. Kynjaskipting samfélagsins á stóran þátt í að viðhalda kerfisbundnu misræmi kynjanna á vinnumarkaði þar sem kvennastörf njóta oftast minni virðingar, valda, áhrifa og launa en störf karla (Katrín Björg Birgisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2012).
Í rannsókn Katrínar og Ingólfs (2012) kemur fram að birtingarmyndir kynjakerfisins eru ekki persónuleg sérviska heldur er það kerfislegt fyrirbæri og því erfitt fyrir konur að brjótast þar í gegn þó einstaka konum takist það. Konur sem eru í störfum sem eru aðgreind og undirskipuð innan fyrrum karlægra starfsgreina þurfa að hafa mikið fyrir því að fá sömu laun og karlarnir. Mikilvægt er að skólakerfið sé meðvitað almennt um stöðu kynjanna í samfélaginu. Það er ekki nóg að hvetja konur í nám í þeim námsgreinum sem karlar hafa hingað til sótt frekar í ef skólakerfið og kennarar eru ekki tilbúnir að treysta kvenkyns nemendum til að leysa verkefnin eins vel og karlarnir. Skólakerfið og vinnumarkaðurinn verða að vera stakk búinn að taka á móti báðum kynjum og vera ekki föst í gildru staðalmynda sem hefur áhrif á laun, verkaskiptinguna og flest alla þá þætti sem hafa áhrif á stöðu kynjanna (Katrín Björg Birgisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2012).

Niðurstöður könnunnar

Höfundar þessarar skýrslu settu sig í samband við sex konur sem allar eiga það sameiginlegt að vera í iðnaðarstörfum og fengu þær til að svara níu spurningum. Þessar konur voru allar á aldrinum 20 til 31 árs. Tilgangurinn var að sá að höfundar fengum að skyggnast inn í heim kvennanna og þeirra upplifun á því að vera kona í iðnaðarstarfi. Störfin sem þessar tilteknu konur starfa við eru húsasmíði, rafvirkjun, rafeindavirkjun og blikksmíði. Allar sex konurnar sögðu að þær hafi verið í bekk þar sem aðeins ein til tvær konur voru að læra iðngreinina á meðan restin af bekknum voru karlmenn. Allar fá yfirleitt mjög góð viðbrögð karlmanna gagnvart námi þeirra og starfi en þó voru tvær sem höfðu fengið athugasemdir frá karlmönnum um að þær væru ekki nógu “trukkalegar” í klæðnaði né vexti til að “fitta inn”. Þrjár konurnar fá almennt mjög góð viðbrögð annara kvenmanna gagnvart námi þeirra og starfi á meðan hinar þrjár tjáðu okkur að fyrstu viðbrögð kvenmanna væru að þær væru hissa. Konurnar fengu misjafna upplifun af því að hefja nám og/eða starf við iðngrein. Fjórar konur fengu mikin stuðning og segja að bekkjarfélagar/samstarfsmenn hafi tekið vel á móti þeim en tvær konur segja að þær hafi upplifað mikla fordóma og mikið áreiti þar sem bekkjarfélagar/samstarfsmenn hafi verið að horfa mikið á þær, talað niður til þeirra og gert grín að þeim. Þrjár konur af sex upplifðu almennt fordóma vegna starf síns. Þá fengu þær oft óviðeigandi athugasemdir frá fólki ef þær klæddust vinnufatnaði t.d. úti í búð og tvær af þessum þremur upplifðu mikla höfnun frá öðrum konum sem létu eins og þær væru hreinlega ekki á staðnum.

Niðurstöður í rannsókn Hrafnhildar og Þorgerðar (2011) benda til þess að konur þurfi að aðlagast karlægum viðmiðum því mikill meirihluti karla móti menninguna innan námsgreinanna. Strákar sækjast frekar í raun- og tæknigreinar, stærðfræði og náttúrufræði en stelpur í hug- og félagsvísindi, heilbrigðisvísindi og menntunarfræði. Karlæg viðmið eru ráðandi innan raunvísindageirans og er sú orðræða og menning sem ríkir innan greinanna sem styður núverandi kynjamynstur. Til að eignast vini og geta tekið þátt í félagslífinu verða nemendur að fylgja viðteknum hefðum og jafnvel að sætta sig við hrokafullan húmor. Fyrir þá sem ná ekki að samsama sig þessari karllægu ímynd geta mætt hindrunum (Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir, 2011).

Tölfræðin

Konur í karllægum störfum, hvort sem um er að ræða iðngreinar eða stjórnunarstöður, hafa verið mikið í fjölmiðlum í gegnum tíðina. Dodd (2012) segir í grein sinni að kynjahlutfall leiðtoga, t.d. forstjórastöður, í hinum ýmsu fyrirtækjum í Bretlandi sé afgerandi. En þá er um að ræða 32.800 konur í leiðtogastörfum á móti 82.450 körlum. Handiðnaður er ein af þeim starfsgreinum sem telst heldur karllæg. Dr. Smith (2013) komst að því í rannsókn sinni að konur í iðngreinum verða fyrir miklum þrýstingi og þurfa að ná miklum árangri til þess að vera metnar á sama hátt og karlmenn í sömu starfsstétt.

Hér á landi hafa 37.792 einstaklingar lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein. Þar af eru konur 5.151. Árið 1990 lauk fyrsta konan á Íslandi sveinsprófi í pípulögnum en frá upphafi hafa alls 1.159 manns lokið prófinu og þar af eru 4 konur. Einstaklingar sem hafa lokið sveinsprófi í bifvélavirkjun frá upphafi eru 2.258. Þar af eru konur 15 talsins. 4.026 Íslendingar hafa lokið sveinsprófi í rafvirkjun og þar af eru konur 40 talsins. Þegar rafeindavirkjun er skoðuð kemur í ljós að 1.090 einstaklingar hafa lokið því námi og þar af eru 23 konur. Frá upphafi húsasmíði hafa 7.275 einstaklingar lokið því sveinsprófi og þar af eru konurnar 39 talsins. Einnig rýndum við í húsgagnasmíði en 695 einstaklingar hafa lokið sveinsprófi í þeirri grein og þar af eru 43 konur. Málmiðngreinar telja blikksmíði, rennismíði, stálsmíði og vélvirkjun. Kynjahlutfallið þar eru 5.865 karlar á móti 39 konum. Vinsælasta greinin innan málmiðngreina er vélvirkjun en þar telja karlar 4.407 á móti 22 konum. Hlutfall kvenna í áðurtöldum iðngreinum er frá 0.35% upp í 2%. Hinsvegar eru konur 6.19% af heildarhlutfalli þegar við skoðum húsasmíði en það mun vera fámennasta stéttin af ofantöldum iðngreinum. Þegar við skoðum fjöldan í heildina og einblínum á einstaklinga sem hafa lokið sveinsprófi í ofantöldum iðngreinum þá er hlutfallið á milli kynjana eftirfarandi: 84% karlmenn á móti 16% kvenmenn (Kvennastarf. e.d.).

Þess má geta að þær Barth og Rice (2016) framkvæmdu rannsókn í New York sem staðfestir þá tilgátu um að konur séu ekki jafn mikils virði og karlmenn á vinnumarkaði. Þegar einstaklingar hafa lokið vissu námi og fara þar næst út á vinnumarkað að sækja um störf þá eru karlkyns umsækjendur vinsælli heldur en konur meðal atvinnurekenda.

Niðurstaða

Tilgangur þessarar skýrslu var að skyggnast inn í heim kvenna í karllægum störfum með áherslu á konur í karllægum iðnaðarstörfum ásamt því að skoða birtingarmyndir þeirra í hinum ýmsu miðlum. Kynjaskipting samfélagsins á stóran þátt í að viðhalda kerfisbundnu misræmi kynjanna á vinnumarkaði, þar sem kvennastörf njóta oftast minni virðingar, völd, áhrif og laun en störf karla (Katrín Björg Birgisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2012). Niðurstöður hafa sýnt okkur að birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum hafa ekki verið góðar. Fyrir það fyrsta þá er ekki mikið fjallað um konur í fjölmiðlum þar sem að aðeins 20% frétta fjalla um konur. Þegar konur koma fram í auglýsingum er birtingarmynd þeirra einstaklega kvenleg þar sem þær standa gjarnan við hliðina á karlmanni. Þar með hafa fjölmiðlar undirstrikað karlmennsku og kvenmennsku. Í kjölfarið heldur samfélagið okkar uppi þessum staðalímyndum. Könnun sem var framkvæmd í kjölfar þessarar skýrslu gaf einnig í skyn að konur í karllægum iðngreinum upplifa mismunum. Sérstaklega í ljósi þess að þær eru í minnihlutahópi og tölfræðin sýnir okkur að þær eru allt frá 0.35-6% starfsmanna í hverri karlægri iðngrein. Einnig sögðu þátttakendur að kynjahlutfall bekkjarins, þegar þær voru í námi, hafi verið um ein til tvær konur á móti 20 karlmönnum eða fleiri. Tölfræðin sýndi okkur einnig að af 37.792 einstaklingum sem hafa lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein, þ.m.t. allar iðngreinar, karllægar sem kvenlægar, eru konur aðeins 5.151 talsins. Hér fyrir ofan er svo farið nánar út í karllægu iðngreinarnar og þar eru konurnar alltaf mun færri heldur en karlarnir. Einnig er búið að koma fram að konur eiga erfiðara með að fá vinnu úti á vinnumarkaði í framhaldi af námi því þær eru ekki metnar jafn mikið og karlmenn. Konur þurfa að aðlagast karlægum viðmiðum því mikill meirihluti karla móti menninguna innan námsgreinanna. Þeir sem ná ekki að samsama sig þessari karllægu ímynd geta þannig mætt hindrunum (Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir, 2011).

 

Umræður

Eins og hefur komið fram var tilgangur þessarar skýrslu að skyggnast inn í heim kvenna í karllægum störfum með áherslu á konur í karllægum iðnaðarstörfum ásamt því að skoða birtingarmyndir þeirra í hinum ýmsu miðlum. Höfundar þessarar skýrslu höfðu mjög gaman að því að skyggnast inn í heim kvenna í karllægum störfum og eftir alla þá vinnu sem fór í þessa skýrslu finna báðir höfundar fyrir miklum eldmóð varðandi þetta umrædda málefni. Eitthvað þarf að breytast. Samfélagið þarf að taka á þessum staðalmyndum. Konur eiga að fá að vinna við það sem þær vilja án þess að vera hræddar um að verða kallaðar trukkalegar eða að einhverjum finnist þær ekki nógu trukkalegar til þess að starfa við það sem þær vilja. Báðir höfundar telja að ef orðræða samfélagsins breytist þá myndu jafnvel fleiri konur fara að starfa við karllægar iðngreinar og að orðið karllægar yrði fjarlægt sem stofn einhversskonar iðngreina. Allar iðngreinar yrðu jafnar sem nám og atvinna fyrir alla.